Seðlabanki Íslands hefur sex sinnum gripið inn í gjaldeyrismarkað með sölu evra frá lokum síðasta árs. Alls hefur bankinn selt 42 milljónir evra í þessum viðskiptum. Til viðbótar gerði bankinn framvirkan gjaldeyrisskiptasamning við Landsbankann í lok febrúar sem er um 36 milljóna evra virði. Samtals hefur bankinn því notað um 78 milljónir evra af gjaldeyrisforðanum í aðgerðir sínar.

Fjallað er um gjaldeyrisviðskiptin í Hagsjá Landsbankans á föstudag. Bent er á að til samanburðar keypti Seðlabankinn 126 milljónir evra á gjaldeyrismarkaði árið 2012 og 78 milljónir árið 2011 í þeim tilgangi að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisvaraforða.„Seðlabankinn þarf því að vera mjög öflugur á kauphliðinni á gjaldeyrismarkaði það sem eftir lifir árs til þess eins að mæta nettó vaxtagreiðslum af skuldsetta forðanum. Það er því bæði ólíklegt og óráðlegt að Seðlabankinn gangi að einhverju ráði frekar á gjaldeyrisforðann til þess að halda gengi krónunnar uppi. Því má vænta þess að verði um frekari inngrip að ræða verði þau áfram fremur smá í sniðum og muni einkum miða að því að jafna skammtímasveiflur á markaðnum,“ segir í Hagsjá.