Stjórn Samtaka myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS) hefur óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæðan er sögð brot fyrrverandi Snæbjörns Steingrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna á árunum 2007 til 2014, sem stjórnin segir hafa viðgengist í mörg ár. Í beiðni stjórnarinnar um gjaldþrotaskipti segir að í vor hafi komið í ljós að Snæbjörn hafi viðhaft háttsemi sem sé talin varða við almenn hegningarlög og hafi málið veri kært. Fram kom í fréttum RÚV í gær, að stjórnin segir ársreikninga hafa verið falsaða um nokkurra ára skeið, opinberum gjöldum hafi ekki verið skilað með réttum hætti, samtökin ekki talið fram til skatts síðan Snæbjörn tók við og vanrækt hafi verið að færa bókhald. Þá hafi framkvæmdastjórinn viðurkennt fjárdrátt.

Í beiðni stjórnarinnar segir félagið sé ógjaldfært og sjái stjórnin sér ekki annað fært en að krefjast gjaldþrotaskipta.

Samtökin SMÁÍS voru stofnuð 1992 til að gæta hagsmuna rétthafa kvikmynda- og sjónvarpsefnis á Íslandi. Að þeim standa Ríkisútvarpið, 365 miðlar, Skjárinn, sem rekur Skjá einn, rekstrarfélag Sambíóanna og útgáfufyrirtækin Sena og Myndform.