Stjórnvöld hafa ekki óskað svara frá bandarískum og breskum yfirvöldum um það hvort ljósleiðarar landsins hafi verið hleraðir og upplýsingum safnað um netnotkun Íslendinga, að sögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Hún sagði í sérstökum umræðum á Alþingi í dag það hagsmunamál að netnotendur hér geti treyst því að reglum verði fylgt. Það fer svo eftir svörum erlendra stjórnvalda hvort ástæða sé til þess að skoða málið frekar og verður þá frekari upplýsinga óskað.

Hanna Birna sagði:

„Staðan nákvæmlega núna er sú að engin slík formleg eftirgrennslan, athugun eða rannsókn er hafin – en íslensk stjórnvöld munu í kjölfar þeirra svara sem frá Bandaríkjunum og Bretum berast við þessum ásökunum – ákveða hvort ástæða sé til að skoða málið sérstaklega með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga.  Ef til þess kemur munu stjórnvöld líklega óska eftir nánari útskýringum frá viðkomandi ríki.“

Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, var málshefjandi sérstöku umræðunnar sem fjallaði um eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum. Málið tengdist uppljóstrun bandaríska uppljóstrarans Edwards Snowden, sem fyrir stuttu ljóstraði upp um það að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hafi staðið í stórfelldum njósnum víða um heim.

Birgitta sagði þögn og andvaraleysi yfirvalda yfirþyrmandi og spurði m.a. hvaða lög það eru sem verndi Íslendinga gagnvart njósnum erlendra yfirvalda.