Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs var söluumboð Komatsu í Danmörku (KFD) með 90% söluaukningu miðað við sama tíma í fyrra, eða um 200 vélar á móti 105. Salan hefur verið þrefölduð frá því Kraftvélar keyptu fyrirtækið. Þetta kemur í kjölfar mikillar söluaukningar á milli áranna 2004 og 2005 sem var 83% eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Fyrirtækið er því að gera gott betur en að ná til sín sinni hlutdeild í þeim vexti sem er á markaðnum í heild, en þar hefur aukningin verið um 35% á ári. Nú gera menn sér vonir um að selja yfir 360 vélar á þessu ári, en meðaltalið áður en Kraftvélar komu að dæminu var um 150 vélar á ári. KFD selur nú meira af Komatsu vinnuvélum en heildarsala allra vinnuvélategunda er á Íslandi segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Kraftvélar ehf. í Kópavogi festu kaup á KFD A/S, "umboðsaðila fyrir Komatsu í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi", um mitt ár 2004. Hraður vöxtur KFD undanfarin misseri hefur skilað fyrirtækinu í toppbaráttuna í Danmörku. Reiknað er með að veltan á þessu ári fari vel framúr móðurfélaginu á Íslandi og verði um 300 milljónir danskra króna eða um 3,9 milljarðar íslenskra króna. Í fyrra var veltan um 2,2 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið hefur með aukinni þjónustu verið að öðlast vaxandi tiltrú verktakafyrirtækja í Danmörku og er m.a. að styrkja stöðu sína hjá stærstu fyrirtækjunum.

Vekur athygli innan Komatsu

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að mjög er litið upp til þess árangurs sem KFD hefur náð í að auka markaðshlutdeild sína þar í landi á undraskömmum tíma. Hefur það ekki síst vakið athygli innan Komatsu samsteypunnar sem notar nú á þetta íslensk-danska fyrirtæki sem fyrirmynd í sókn annarra umboðsaðila á mörkuðum í Evrópu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag