Ómar Þröstur Hjaltason og Njáll Skarphéðinsson sem reka fyrirtækið BaseParking ehf. segja augljóst að Isavia, reyni að leggja stein í götu starfsemi fyrirtækisins með því að bjóða upp á sams konar þjónustu og þeir. Einnig hafi verið reynt að ýta þeim frá með öðrum bellibrögðum að því er segir í Fréttablaðinu .

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá býður fyrirtækið farþegum í Leifsstöð upp á þá þjónustu að taka við bílum þeirra við innganginn að flugstöðinni og sækja farþegana aftur við heimkomu, en í millitíðinni eru bílarnir geymdir í langtímastæði með öryggisgæslu við Ásbrú.

Hafa þeir félagar sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins þar sem þeir segja ríkisfyrirtækið hafa farið í kjölfar þess að þeir hófu rekstur að bjóða farþegum upp á sams konar þjónustu á þeirra langtímastæðum við flugstöðina gegn aukagjaldi.

„Þeir eru að leggja stein í götu okkar, það er augljóst,“ segir Ómar Þröstur sem segir hvimleitt fyrir tveggja manna fyrirtæki að standa í stappi við risastórt ríkisfyrirtæki.

„Þeir hafa reynt að reka okkur frá flugstöðvarbyggingunni, reynt að sekta okkur fyrir að nota í mjög skamma stund bílastæði nálægt flugvellinum og svo í ofanálag eru þeir farnir að bjóða upp á nákvæmlega sömu þjónustu og við erum að veita.“