Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, hafa fulltrúar hennar rætt við stjórnvöld um aðkomu hennar að því að koma fyrirtækjum sem hafa lent í eigu ríkisins í dreifða eignaraðild á ný. Þórður sagðist telja að hlutabréfamarkaður geti orðið mjög veigamikill þáttur í að endurreisa efnahagslífið.

,,Það er lykilatriði fyrri efnahagslífið að fá hlutabréfamarkað aftur í gang. ,,Ég veit ekki af neinu öflugu efnahagskerfi sem ekki er með öflugan hlutabréfamarkað sem hluta af því hagkerfi. Ég held að það sé mjög mikilvægur þáttur í endurreisn efnahagslífsins. Menn þurfa að hafa þennan kost til þess að selja fyrirtæki um leið og þeir hafa þennan valkost til fjárfestinga.“

Gegnsæ og heilbrigð leið

Þórður sagðist hafa rætt það við ýmsa aðila að nota kauphöllina til að koma félögum aftur í dreifða eignaraðild eins og ýmsir hafa lagt til. ,,Mér lýst mjög vel á þessar hugmyndir því það er gegnsæ og heilbrigð leið við að selja eignir á ný og það er eiginlega auðveldast að rökstyðja þá leið að fara  með þetta í gegnum markaðinn. Það skapar gegnsæi sem er byggt á reglunum. Jafnframt er almennum fjárfestum þannig gefin kostur á að tala þátt í uppsveiflunni sem flestir telja að sé framundan. Síðan er það gott fyrir hagkerfið að öflug fyrirtæki séu í dreifðri eignaraðild. Hún er gríðarlega mikilvæg í þessu sambandi.“

Þórður sagðist telja að þetta væri mjög ákjósanleg leið og í raun mjög einföld ef menn eru með góð og öflug fyrirtæki. ,,Þá held ég að markaðurinn muni núna taka mjög vel á móti svona fyrirtækjum.“