Kaupthing Singer & Friedlander hafði fyrir helgi umsjón með hlutafjárútboði og skráningu þýska fyrirtækisins TGE Marine AG á AIM-markaðinn í London, og aflaði útboðið 67 milljóna punda, eða sem nemur tæplega 9,6 milljörðum íslenskra króna.

Við skráningu var markaðsvirði TGE Marine 158,3 milljónir punda en hefur hækkað síðan og var um miðjan dag í gær skráð rúmlega 161 milljón punda. Kaupthing Singer & Friedlander hefur haft umsjón með fjórum frumútboðum (IPO) á þessu ári og á síðasta ársfjórðungi 2007. Fyrir utan TGE Marine má nefna félögin New Britain Palm Oil, Cryo-Save og Melorio.

Samtals hefur Kaupthing Singer & Friedlander safnað rúmlega 200 milljónum punda fyrir þessi félög í útboðum, að sögn Ármanns Þorvaldssonar, forstjóra fyrirtækisins.

Gengi pundsins hefur tekið talsverðum breytingum undanfarna mánuði samfara veikingu krónunnar og því torvelt að ákvarða nákvæmlega hvað þessi upphæð telst há í íslenskum krónum, en væri miðað við gengi sterlingspunds um miðjan dag í gær samsvaraði upphæðin um 28,5 milljörðum króna. Einnig má nefna félögin Plasmon, Asset Co og Entertainment One á þessu ári, og Inspicio og Teesland í fyrra.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .