*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 3. mars 2020 07:01

Hafa safnað 12 milljónum dollara

Fyrirhugaður vöxtur Algaennovation, úr rúmum 500 fermetrum í rúmlega 15 þúsund, er eðli málsins samkvæmt ekki ókeypis.

Jóhann Óli Eiðsson
Kristinn Hafliðason er framkvæmdastjóri Algaennovation.
Eyþór Árnason

Fyrirhugaður vöxtur Algaennovation, úr rúmum 500 fermetrum í rúmlega 15 þúsund, er eðli málsins samkvæmt ekki ókeypis og hefur félagið því undanfarið unnið að því að safna fjármagni til að ná markmiðum sínum.

„Frá stofnun höfum við náð að safna 12 milljónum dollara en langstærstur hluti þess kemur frá íslenskum fjárfestum sem eiga tæp 40 prósent í félaginu. Stofnendur félagsins eiga tæp 60 prósent og þá á hver starfsmaður örlítinn hlut einnig,“ segir framkvæmdastjórinn Kristinn Hafliðason, alltaf kallaður Kiddi. Að sögn hans hefur bæst í hópinn undanfarið, bæði úr hópi einstaklinga og stöndugra félaga, og von á fleirum næstu vikur. Í lok árs sé stefnt á aðra fjármögnun en þá sé horft til útlanda og standa vonir til þess að þá sé virðismat félagsins orðið allt annað.

„Það er ekki tímabært sem stendur að auglýsa í blöðum hverjir hafa verið að detta inn en það má fylgja sögunni að við erum afskaplega þakklát fjárfestum. Þeir hafa sýnt okkur feikilegan áhuga og gríðarlegt traust. Hingað til höfum við ekki brugðist trausti þeirra og við ætlum ekki að gera það,“ segir Kiddi.

Augað alltaf á endamarkinu

Stóra langtímamarkmiðið sé hins vegar að gera sig gildandi sem eina mögulega lausn á matvælavanda framtíðarinnar. Í ráðgjafaráði félagsins megi til að mynda finna þungavigtarmenn á borð við William Moomaw. Sá er einn höfunda hluta skýrslna Milliríkjanefndar um loftslagsvandann en nefndin hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007 ásamt Al Gore.

„Þetta eru gaurar sem hafa áhuga á stóru vandamálunum. Áður einblíndi hann á loftslagið, nú eru það matvælin. Þetta eru menn sem eru ekki að spá í 15 eða 20 prósenta betri nýtni heldur kviknar áhugi þeirra þegar þeir heyra tölur á borð við 500 sinnum betri vatnsnýtingu eða 1.500 sinnum betri landnýtingu,“ segir Kiddi.

„Við höfum trú á því að það sem við erum með í höndunum gæti raunverulega verið einhver lausn. Við erum í þessu á rekstrarlegum forsendum, til að fá stöðugar tekjur, skila hagnaði og eðlilegri ávöxtun til þeirra sem tóku sénsinn á okkur. Sýnin okkar nær hins vegar áratugi fram í tímann.“

Draumurinn er að Ísland geti með þessum hætti orðið hálfgerð matarkista fyrir stóran hluta jarðarkringlunnar. Þegar fram í sækir sé síðan mögulegt að horfa enn lengra og reyna að hafa enn meiri áhrif á stóra samhengið. Mögulega væri hægt að koma sambærilegum verksmiðjum upp annars staðar, og þó að hagvæmnin að baki yrði þá í öðru eða þriðja sæti, væri hægt að nýta land og vatn mun hagkvæmar og þannig framleiða nægilegt magn af mat til að það hefði raunveruleg áhrif.

„Möguleikarnir eru í raun endalausir. Við teljum okkur vera með eitthvað í höndunum sem leyfir okkur að hugsa stórt. Það er brjálæðislega spennandi og skelfilega gaman,“ segir Kiddi og bætir glottandi við að lokum: „engin pressa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Algaennovation