Salt Pay Co Ltd., sem keypti Borgun á síðasta ári, lauk nýlega 345 milljón dollara hlutafjárútboði, andvirði um 45 milljarða króna. Félagið hefur þar með safnað um einum milljarði dollara af hlutafé undanfarið ár eða um 130 milljörðum króna. Samkvæmt upplýsingum frá Salt Pay eru Brasilíumennirnir Andre Street og Eduardo de Pontes áfram aðaleigendur félagsins. Þeir auðguðust á uppbyggingu brasilíska greiðslumiðlunarfélagsins StoneCo.

Tvöfaldað fjölda starfsmanna í ár

Salt Pay hefur verið í miklum vexti og hefur starfsmannafjöldinn ríflega tvöfaldast á árinu, úr um 600 í 1.300. Frá kaupunum á Borgun hefur það keypt fjölda greiðslukortafélaga m.a. í Bretlandi, Portúgal, Tékklandi og Suður-Afríku. Kaupin á Borgun voru fyrstu fyrirtækjakaup félagsins en móðurfélag Salt Pay er með aðsetur á Cayman-eyjum í Karíbahafinu. Salt Pay greiddi ríflega fjóra milljarða króna fyrir Borgun sem var í meirihlutaeigu Íslandsbanka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .