*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 28. nóvember 2021 11:32

Hafa selt fyrir 9 milljarða

Miklaborg gerir ráð fyrir að lúxusíbúðirnar í Austurhöfn verði uppseldar um og upp úr páskum. 43 íbúðir hafa þegar verið seldar.

Andrea Sigurðardóttir
Mikil eftirspurn hefur verið eftir veglegustu íbúðunum í Austurhöfn.
Eyþór Árnason

Vel hefur gengið að selja íbúðir í Austurhöfn en 43 íbúðir hafa verið seldar af 71 og er söluverð seldra íbúða hátt í 9 milljarðar króna. Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Mikluborg, segir dýrari íbúðir vera bróðurpart seldra íbúða og að fermetraverð hafi verið frá um milljón krónum og allt upp í rúmlega 1,3 milljónir þegar kemur að dýrustu íbúðunum.

„Það hefur mest verið að fara af dýrari íbúðunum, það er að segja íbúðum sem snúa út að bryggju og eru 170 til 200 fermetrar að stærð eða stærri. Það er skemmtilegt að sjá hve mikill áhugi hefur beinst að þessum íbúðum en í dag eru aðeins sjö þeirra eftir," segir Jón og bætir við að þau hjá Mikluborg geri ráð fyrir að allar íbúðir Austurhafnar verði seldar um eða upp úr páskum.

„Næststærsta íbúðin seldist nýverið en sú stærsta er enn eftir, það er 350 fermetra endaíbúð sem er við hliðina á Edition Reykjavík hótelinu. Hún er töluvert mikið sýnd og mikill áhugi þrátt fyrir að kaupendahópurinn sé ekki jafn stór og fyrir 200 fermetra íbúðirnar."

Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Mikluborg.

Jón telur að um 30 til 40% þeirra sem sýnt hafi stærstu íbúðinni áhuga séu erlendir aðilar og segir hann áhuga á íbúðunum almennt vera beggja blands.

„Nú þegar hafa nokkrir erlendir aðilar keypt sér eignir í húsinu og við höfum orðið vör við kipp í fyrirspurnum með opnun Edition hótelsins, bæði frá þeim sem eru að fara að gista á Edition og eins frá aðilum sem hafa nú þegar dvalið þar á þessum stutta tíma sem það hefur verið opið. Þetta er í takt við það sem við höfum búist við, að eitthvað af hótelgestum myndu sýna þessu verkefni áhuga og það hefur orðið raunin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér