Að sögn Lofts Ágústssonar, markaðsstjóra hjá Ingvari Helgasyni, hafa þeir tekið þátt í að senda bíla út landi eins og flest önnur umboð.

„Við byrjuðum snemma í sumar að senda bíla úr landi og fyrir júlí vorum við búnir að losa rúmlega 200 bíla af lagernum okkar en í dag eru farnir af lagernum rúmlega 300 bílar af flestum gerðum frá okkur. Við höfum ekki haft okkur mikið í frammi við að segja frá þessum söluafrekum enda hafa þetta í flestum tilfellum verið viðskipti sem hafa átt sér stað undir þeim formerkjum að markaðurinn hefur hrunið og við átt í vök að verjast við að losa lager. Það var þó okkar gæfa hvað við völdum snemma að horfast í augu við ástandið eins og var í stað þess að bíða og það hjálpaði okkur mikið við að fá ásættanlegt verð fyrir vöruna," sagði Loftur í samtali við Viðskiptablaðið.