Hagræðingarhópi Alþingis hafa borist mörg hundruð tillögur frá almenningi til að gera ríkisreksturinn betri, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann flytur nú munnlega skýrslu á Alþingi um störf ríkisstjórnarinnar. Í skýrslunni fór hann m.a. yfir þá mörgu sérfræðihópa á vegum ríkisstjórnarinnar sem eru að störfum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal er sérfræðihópur sem á að leggja fram tillögur um lækkun verðtryggðra húsnæðislána, hópur sem skoða á afnám verðtryggingar á neytendalánum og annar sem vinnur að afnámi stimpilgjalds og álagningu gjalda á fjármálafyrirtæki vegna tafa sem orðið hafa á endurútreikningi lána.

Sigmundur sagði sérfræðihópana skila flesta af sér í haust, þar á meðal hagræðingarnefndina.

Með vinnu sérfræðihópanna sagði Sigmundur stefnt að því að bæta og einfalda regluverk. Þar horfi ríkisstjórnin lengra en til loka kjörtímabilsins, að hans sögn.

Gert er ráð fyrir því að umræður um skýrslu Sigmundar standi yfir í um þrjár klukkustundir.