Samkvæmt svari iðnaðar- og við­skipta­ráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hefur Samkeppniseftirlitið tekið 1615 stjórnsýslumál til meðferðar. Í um helmingi málanna, eða 846, hefur eftirlitið kallað eftir gögnum og þar með hafið rannsókn af einhverju tagi.

Stjórnvaldssektir ákvarðaðar af Samkeppniseftirlitinu nema samtals 8.005 milljónum króna. í 29 tilvikum komu sektir fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Heildarupphæð þeirra sekta nemur samtals 4.153 fyrir úrskurð áfrýjunarnefndar en 2.579 milljónum eftir úrskurð.

Fjárhæð sekta sem hefur verið áfrýjað til héraðsdóms nemur 1.461 en heildarfjárhæð sekta í dómum héraðsdóms nemur 1.050. Fjárhæð sekta sem hafa komið fyrir Hæstarétt nemur 580 milljónum króna en þær sektir nema 765 milljónum eftir meðferð Hæstaréttar.

Alls nemur fjárhæð mála sem hefur verið lokið með sátt 4.070 milljónum króna. Heildarfjárhæðir sekta, og sátta, sem hafa runnið í ríkissjóð nema því alls 10,275 milljörðum króna frá því Samkeppniseftirlitið tók til starfa í júlí 2005.