Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir það vera hlutverk stjórnenda að breyta Póstinum með tilliti til breytinga í rekstrarumhverfinu. Á sama tíma og bréfum fækkar sé pökkum að fjölga og netverslun að aukast.

„Póstfyrirtæki í Evrópu eru að hasla sér völl á fjölmörgum öðrum sviðum en bara pökkum og bréfum. Portúgalski pósturinn var til dæmis að taka upp bankastarfsemi fyrir tveimur eða þremur árum síðan og sama má segja um fleiri önnur póstfyrirtæki. Þá má einnig geta þess að franski pósturinn var að bjóða núna, ekki alls fyrir löngu, símaþjónustu, þannig að sagan gengur til baka, hvert veit nema gamli franski póstur og sími verði endurreistur.“

Breytingar í þessa veru, bankaþjónusta og símaþjónusta, er þetta eitthvað sem þér hugnast fyrir Íslandspóst?

„Við höfum skoðað ákveðna þætti fjármálaþjónustu og reyndar sitt hvað fleira. Að vissu leyti erum við að sinna fjármálaþjónustu með Moneygram sem eru peningatilfærslur á milli landa. Það er vaxandi þáttur hjá okkur, og reyndar fjölmörgum póstfyrirtækjum í Evrópu. Það fer vel saman, svipuð menning í póstþjónustu og bankaþjónustu, að minnsta kosti afgreiðslulega séð. Hvort að Pósturinn fer dýpra inn á þetta svið, það hefur ekki komið til alvarlegrar skoðunar hér. En þetta er eitt af því sem er svo sem mögulegt og mörg fordæmi eru fyrir.“

Ítarlegt viðtal við Ingimund er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .