Frá því að viðskiptahraðlarnir Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík voru stofnaðir hafa sprotafyrirtæki í hröðlunum safnað sér heilum 1,7 milljarði íslenskra króna í fjármagn.

Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík eru viðskiptahraðlar sem gera sprotafyrirtækjum kleift að fá leiðbeiningu og ráðgjöf. Hraðlarnir snúast um að veita frumkvöðlafólkinu á bak við sprotana aðstoð við reksturinn, til þess að hraða viðskiptaferlinu í átt að sjálfbærum rekstri.

Arion banki fjárfestir í þessum sprotafyrirtækjum gegnum félögin Startup Reykjavík Invest ehf. og SER Holding ehf., en auk bankans koma utanaðkomandi fjárfestar að fjármögnun sprotafyrirtækjanna. Fjöldi umsókna í SR og SER jókst frá árunum 2012 til 2014 en þeim fækkaði á síðasta ári - mögulega vegna þess að hagkerfið hefur rétt úr sér eftir hrunið og í kjölfarið er næg eftirspurn eftir vinnuafli.

Þetta kemur fram í grein Einars Gunnars Guðmundssonar, en hann er framkvæmdastjóri Startup Reykjavík Invest ehf. og stjórnarformaður SER Holding ehf.  Einar veltir þá fyrir sér í greininni hvort íslenskir fjárfestar muni þora að stofna fjárfestingarsjóð sem myndi auka aðgengi sprotafyrirtækja að fjármagni - og hvort slíkan sjóð mætti ekki skrá á First North markað, svo almenningur hafi einnig aðgang að fjárfestingum í sprotafyrirtækjum.