Frá upphafi árs 2015 og út fyrsta ársfjórðung þessa árs hefur Icelandair tapað 155 milljónum Bandaríkjadala – 22,5 milljörðum króna á gengi dagsins í dag – á svokölluðum olíuvörnum.

Þetta kemur fram í tísti Ragnars Gunnarssonar viðskiptafræðings og fyrrum verðbréfamiðlara, en hann vísar í gögn frá félaginu sjálfu, hvers upplýsingagjöf hann segir vera til fyrirmyndar.

Aðeins fjóra af þeim 21 ársfjórðungum sem tímabilið nær yfir borguðu varnirnar sig þegar upp var staðið, en hina 17 lækkaði olíuverð á tímabilinu, og flugfélagið endaði á að ofgreiða fyrir olíu samanborið við óvarin kaup.

Skúla Mogensen stofnanda og fyrrum forstjóra Wow air var legið á hálsi á síðasta og þarsíðasta ári þegar félagið lenti í erfiðleikum, fyrir að hafa ekki notað olíuvarnir í sínum rekstri. Olíuverð tvöfaldaðist frá lágpunkti sínum í upphafi árs 2016 og til sumarsins 2018, sem kom sér illa fyrir flugfélagið bleika.

Meðal þeirra fjóru ársfjórðunga sem varnir Icelandair borguðu sig voru fyrstu þrír ársfjórðungar 2018.

Varnirnar eru í reynd framvirkir samningar um kaup á flugvélaeldsneyti á fyrirfram ákveðnu verði í framtíðinni, og eru mjög algengar sem áhættustýringartæki í rekstri flugfélaga.

Samningarnir tryggja að þegar seldur er flugmiði á tilteknu verði mánuði fram í tímann, verði verðhækkanir olíu í millitíðinni ekki til þess að flugferðin verði félaginu dýrari en búist var við, og skili jafnvel félaginu tapi.

Eðli máls samkvæmt bókfærist það hinsvegar sem tap ef olíuverðið lækkar í millitíðinni, og félagið endar á að greiða meira fyrir olíuna en það hefði annars þurft að gera.