Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa fært um 92,7 milljarða króna á afskriftarreikninga, eða afskrifað að fullu, vegna skuldabréfa útgefnum af fyrirtækjum eða fjármálastofnunum frá bankahruni. Upphæðin nemur tæpum 6% af áætlaðri vergri landsframleiðslu íslenska þjóðarbúsins á árinu 2011. Um er að ræða 55-70% niðurfærslu á skuldabréfum fyrirtækja og fjármálastofnana sem sjóðirnir keyptu á uppgangsárum íslensks viðskiptalífs.

Lífeyrissjóðirnir þrír (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV)) eiga tæplega helming allra eigna íslenska lífeyrissjóðakerfisins. Hrein eign íslenska lífeyrissjóðakerfisins var 1.965 milljarðar króna í lok mars síðastliðins.

Mest hjá LSR

Stærsti lífeyrissjóður landsins, LSR, hefur fært niður skuldabréf sín í fyrirtækjum og fjármálastofnunum um 40,7 milljarða króna frá bankahruni. Þorri þeirrar upphæðar var færður á afskriftarreikning, eða afskrifaður að fullu, á árunum 2008 og 2009. Í fyrra nam niðurfærsla sjóðsins um 1,6 milljörðum króna.

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segist telja að sjóðurinn sé nú búinn að færa bréfin niður eins mikið og hann þarf til að þau endurspegli raunverðmæti þeirra. „Auðvitað veit maður aldrei, en við höfum farið þá leið að færa frekar meira niður en minna. Þau fyrirtæki sem við eigum enn bréf á eru almennt traust fyrirtæki en auðvitað getur alltaf eitthvað komið upp á. Það er þó ekkert sem bendir til þess að við þurfum að færa meira niður.“

95% árin 2008 og 2009

LV færði skuldabréfaeignir sínar niður um 9,9 milljarða króna á árinu 2008 og um 16,5 milljarða króna árið eftir. Í fyrra bættist síðan við 1,3 milljarða króna niðurfærsla og því er heildarumfang hennar frá bankahruni 27,7 milljarðar króna. Þar af eru 18,7 milljarðar króna enn á afskriftarreikningi en endanlega er búið að afskrifa 9,1 milljarð króna.

Að sögn Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins, er það mat stjórnenda LV að niðurfærslum á skuldabréfunum sé lokið. „Við sjáum ekki frekari viðbótarniðurfærslur.“

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.