Sala Icelandair á síðasta 25% hlutnum í Icelandair Hotels til malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya lauk í ágústmánuði. Hótelkeðjan hefur nú tólf mánuði til að skipta um nafn og losa sig við Icelandair vörumerkið en þetta kemur fram í árshlutareikningi flugfélagsins sem birtist í dag.

Hlutdeild Icelandair í tapi hótelkeðjunnar hafi numið 3,9 milljónum dala, eða um 504 milljónum króna, í ár.
Fram kemur að beðið verði með að bókfæra 2 milljónir af 6,7 milljóna dala söluhagnaði af hótelkeðjunni þar til skilmálar samnings hafa verið uppfylltir og ábyrgð Icelandair á leigusamningum félagsins aflétt.

Icelandair tilkynnti um samkomulag um sölu á eftirstandandi fjórðungshlut í hótelkeðjunni í febrúar. Þá kom fram að söluverðið hafi numið 3,4 milljónum dala eða um 440 milljónum króna sem komi til greiðslu við afhendingu hlutarins og þegar helstu skilmálar hafa verið uppfylltir.

Sjá einnig: Virði Icelandair Hotels fallið um 86%

Þegar upphaflega var tilkynnt um söluna á Icelandair Hotels til Berjaya í lok árs 2019 kom fram að söluverð fyrir fyrri 75% hlutinn yrði 10,1 milljarður króna. Í gegnum söluferlið lækkaði verðið um 75%, eða úr 10,1 milljarði í 6,5 milljarða, aðallega vegna áhrifa Covid-faraldursins.