„Það er ómögulegt að segja hversu langan tíma þetta getur tekið því ýmsir þættir geta haft áhrif á ferlið,“ segir Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings spurður um það hvenær kröfuhafar Kaupþings reikni með því að selja hlut sinn í Arion banka. Slitastjórnin greindi frá því í júní að í bígerð væri að skoða hugsanlega sölu á hlut Kaupþings í Arion banka ef af verður og að til stæði að ráða utanaðkomandi ráðgjafa. Jóhannes reiknar með að ráðgjafi verði ráðinn fljótlega til starfans.

Kröfuhafar Kaupþings eiga 87% hlut í Arion banka á móti ríkinu sem fer með 13% hlut. Bankasýsla ríkisins fer með hlut ríkisins í Arion banka.

Jóhannes vildi ekki tjá sig frekar um hugsanlega sölu á hlut Kaupþings í Arion banka í samtali við VB.is. Hann vildi sömuleiðis hvorki segja hversu margir fjárfestar eða hverjir það hafi verið sem hafi lýst yfir áhuga á að kaupa hlut kröfuhafa í Arion banka.