Isaac Kato, fjármálastjóri Verne Global sem á og rekur gagnaver hér á landi, benti á í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni Iceland Invest Forum hve mikilvægt hið lága orkuverð á Íslandi er fyrir rekstur slíkra fyrirtækja.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að helsta áskorun fyrirtækisins við að laða kaupendur til Íslands sé að staðsetningin sé ný en að breyttar aðstæður í geiranum hjálpi til við að sannfæra viðskiptavini um að Ísland sé ákjósanlegur kostur.

„Við myndum vilja sjá gjaldeyrishöftin hverfa á þægilegan hátt,“ segir Kato sem segir suma en ekki marga af mögulegum kaupendum að þjónustu fyrirtækisins setja höftin fyrir sig. „En til að laða að fleiri gagnaver þá myndi það hjálpa til. Við erum búin að venjast höftunum þar sem við höfum verið á Íslandi í lengri tíma og höfum skuldbundið okkur til að vera langtímafjárfestar á Íslandi,“ segir Kato en að hans sögn eru fjárfestar fyrirtækisins mjög þolinmóðir. Þar á meðal er Novator þar sem Björgólfur Thor Björgólfsson er aðaleigandi, Welcome Trust og General Cataclyst Partners.

Fjallað er ítarlega um ráðstefnuna Iceland Invest Forum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .