Framtíðin var kynnt til sögunnar í febrúar síðastliðnum og vakti stofnun námslánasjóðsins nokkra athygli, enda sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Framtíðin veitir verðtryggð og óverðtryggð lán til námsmanna, einkum háskólanema, og hefjast endurgreiðslur hálfu ári eftir að námi lýkur. Verðtryggðir vextir Framtíðarinnar eru 6,95% og óverðtryggðu vextirnir 10,10%.

Ellert Arnarson, stjórnarmaður í Framtíðinni, segir fyrstu lánveitingarnar hafa farið af stað í mars og að framtakið hafi vakið mikla lukku. „Við reiknuðum alltaf með miklum áhuga, enda höfum við fundið fyrir því að áhugi íslenskra námsmanna á að fara erlendis í flotta skóla væri mikill. Það hefur gengið mjög vel,“ segir hann.

Huga að næsta hausti

Ellert segir eftirspurnina eftir lánum sjóðsins hafa verið sveiflubundna. Mikill áhugi hafi verið í kjölfar fréttanna um stofnun sjóðsins, en sumarið hafi verið rólegra. „Svo erum við aðeins farin að finna fyrir því núna að fólk er strax farið að huga að haustinu 2016,“ segir hann.

Helst má skipta umsækjendum hjá Framtíðinni í tvo hópa að sögn Ellerts. Í fyrsta lagi eru það einstaklingar sem eru að fara út í nám og þá koma lán frá Framtíðinni sem viðbót við lán frá LÍN. Í öðru lagi eru það síðan einstaklingar sem eru að fara aftur í nám eftir að hafa verið á vinnumarkaði. Vegna tekjuskerðingar á lánum LÍN getur slíkt fólk verið í þeirri stöðu að fá ekki lán frá sjóðnum. Um það bil helmingur lántaka stefnir í nám erlendis að sögn Ellerts.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .