Það eru búin að vara átök á vinnumarkaði í eitt ár og þau munu halda áfram sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Hann benti á að á síðasta ári hefðu verið fleiri verkföll á Íslandi en verið hefðu á einu ári um áratugaskeið.

„Það voru skærur í fyrra. Það voru sett lög á flugmenn," sagði Gylfi. „Það voru sett lög á átta háseta á Herjólfi sem voru í helgarvinnubanni. Þá þótti Alþingi nú aldeilis vera mikil þjóðarvá fyrir dyrum. Þar voru menn að glíma við að fá sömu samninga og yfirmenn höfðu fengið á Herjólfi.

Gylfi sagðist lengi hafa spáð því að þessi átök myndu halda áfram. "Og mér sýnist allt stefna í það."

Hann sagði að hér hefði verið í gildi samræmd launastefna sem gengi út á það að lágtekjuhóparnir fengju alltaf aðeins meiri hækkun á hverju ári en þeir sem hefðu hærri tekjur. Með því að gera þetta í mörg ár næðist ákveðinn jöfnuður en nú væru blikur á lofti því „fyrir rúmi ári síðan kröfðust háskólahópar allt í einu sömu hækkana og lágtekjuhóparnir höfðu fengið. Þar með var búið að þurrka út margra ára strit um að reyna að lyfta lægstu laununum."

Gylfi sagði að Íslendingar væru heimsmeistarar í launahækkunum en „samt erum við ekkert sérstaklega góð í að auka kaupmátt.
Ef við viljum í rauninni stöðugleika þá er eina leiðin að taka allt módelið. Við getum ekki farið í stöðugleika og hóflegrar launahækkanir en viðhaldið tekjumisskiptingu. Við getum ekki farið í hóflegar launahækkanir til að tryggja lága verðbólgu og leyft síðan ríkisstjórninni að hamast á velferðarkerfinu.

Við erum búnir að funda með ríkisstjórninni nokkrum sinnum í haust og vekja athygli á einstaka stefnu ríkisstjórnarinnar sem vinni gegn þessum markmiðum um stöðugleika. Það hefur því miður ekki tekist. Ríkisstjórnin ætlar sér að fara sínu fram. Það er allt í lagi þá verðum við bara að mæta því."