*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 20. nóvember 2020 17:09

Hafði tvöfaldan sigur gegn Bacco

Ásakanir um brot á starfsskyldum og brostnar forsendur vegna skattrannsóknar voru til umfjöllunar í máli sem tengist Bacco.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Bacco Seaproducts ehf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmt til að greiða Svavari Þór Guðmundssyni tæplega 23 milljónir króna auk dráttarvaxta frá febrúar á þessu ári. Þá var viðurkennt með dómi í öðru máli að félag í eigu Svavars ætti 33,3% af hlutafé í Bacco. Var félaginu gert að færa hlutafjáreignina í hlutaskrá.

Málin tvö eiga rætur að rekja til Sæmarks málsins svokallaða en eftir að skattarannsókn hófst á færslum félagsins. Á þeim tíma er rannsóknin hófst var Svavar sölustjóri hjá Sæmarki. Eftir að eignir Sæmarks voru kyrrsettar þótti ljóst að félagið myndi ekki lifa og færði fjöldi starfsfólks sig og sín viðskiptasambönd til Bacco.

Forsvarsmenn Bacco voru Óskar Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson. Kom það til tals á milli þeirra og Svavars að þeir þrír myndu reyna að vinna saman að því að fylla upp í það skarð sem myndaðist þegar Sæmark rúllaði. Niðurstaðan varð því sú að Svavar Þór stofnaði Skástræti en það átti síðan að kaupa þriðjung í Bacco. Gengið var þeim samningum í mars 2018.

Að sögn Óskars og Bjartmars var Svavar þráspurður um það, áður en samningar voru undirritaðir, hvort hann væri sjálfur til rannsóknar í málinu. Slíkt væri algjör frumforsenda fyrir því að þeir gætu náð saman. Því neitaði Svavar en í maí 2018 var honum, að eigin sögn, tilkynnt um að rannsókn væri hafin á skattskilum hans. Eignir, að andvirði tæplega 122 milljónir króna, voru síðan kyrrsettar í október það haust.

„Spjall á kajanum“ um skattrannsókn

Að sögn Svavars tilkynnti hann meðeigendum sínum strax að hann væri til rannsóknar en þeir neituðu því aftur á móti og sögðu það ekki hafa legið fyrir fyrr en í febrúar 2019. Bjartmar sagðist að vísu hafa heyrt einhvern orðróm þess efnis án þess að það hafi legið fyrir nákvæmlega hvað hefði verið á ferð.

„[Óskar og Bjartmar] voru, þrátt fyrir skattrannsókn, að sögn reiðubúnir að semja upp á nýtt við [Skástræti] og [Svavar]. Þeir hafi meira að segja verið reiðubúnir að halda honum í starfi, undir breyttum formerkjum þó, enda kæmi hann hvergi fram fyrir hönd félagsins, hvorki sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður né eigandi,“ segir í atvikalýsingu málsins. Svavar sagði hins vegar að viðskiptafélagar hans hefðu reynt að drepa málinu á dreif og fara á svig við áður gerða samninga.

Fundað var reglulega á árinu 2019 til að reyna að leysa úr flækjunni en án árangurs. Fyrir dómi lágu nokkur skjöl sem aðilar deildu um hvort hefðu verið samningar eða drög að samningum. Það virðist hafa fokið í flest skjól haustið 2019 þegar ársreikningi vegna rekstrarársins 2018 var skilað og hann samþykktur án aðkomu Svavars. Hluthafaskrá þess árs innihélt ekki nafn Svavars.

Sögðu hann fullan á starfsstöð og ekki sinna skyldum

Í nóvember 2019 var Svavari síðan formlega sagt upp störfum vegna þessa ágreinings. Að auki var honum tilkynnt sú sýn Óskars og Bjartmars að engir samningar væru í gildi um kaup á hlutafé þar sem forsendur fyrir slíku væru brostnar. Ástæða þess væru meint 122 milljón króna skattsvik hans. Rannsókn skattsrannsóknarstjóra er að vísu lokið og liggur fyrir að upphæðin er talsvert lægri en andvirði þeirra eigna sem kyrrsettar voru til tryggingar á greiðslu skattskuldar. Í september á þessu ári var Svavari tilkynnt með bréfi að hann hefði ekki lengur réttarstöðu grunaðs í málinu.

Af þeim sökum höfðuðu Svavar Þór og Skástræti málin tvö. Annars vegar til efnda á samningi um kaup á hlutafé í Bacco og hins vegar til innheimtu launa sem hann taldi sig eiga inni. Þegar honum var sagt upp störfum tók Bacco á sig að greiða honum laun í sjö mánuði. Þær greiðslur hafi verið inntar af hendi þar til að í ljós kom, að þeirra sögn, að Svavar hafi staðið í samkeppni við félag þeirra og haft samband við birgja og viðskiptavini með það að marki að grafa undan starfsemi Bacco. Svavar neitaði því hins vegar að hafa samþykkt það að fara ekki í samkeppni við Bacco. Krafðist hann því greiðslna á launum fyrir sex mánuði, 2,6 milljónir króna fyrir hvern mánuð og ógreidds 55 daga orlofs.

„Málatilbúnaður [Óskars, Bjartmars og Bacco] verður ekki skilinn öðruvísi en svo að til viðbótar skattrannsókn á hendur [Svavari] sem dregist hafi á langinn, og því sífellt erfiðara orðið að verja það að hafa hann við störf, hafi miklu varðað að [Svavar] hafi tekið að viðhafa stopula mætingu, vera undir áhrifum á starfsstöð, ekki svarað erindum og ekki gætt að öðru leyti þeirra skyldna sem á honum hafi hvílt. Um þessa málsástæðu, þ.e. í grunninn að [hann] hafi ekki sinnt starfi sínu með ásættanlegum hætti verður það sagt að hún er engum gögnum studd nema framburði forsvarsmanna og eigenda stefnda Baccos,” segir í niðurstöðu dómsins en meðal annars var byggt á því að Svavar hefði sinnt starfi sínu illa og því ætti Bacco kröfu á hann.

Skál fyrir #PhoenixFish

Að mati dómsins náðist ekki samkomulag um starfslok milli Bacco og Svavars. Í uppsagnarbréfi var brýnt fyrir honum að starfa ekki í samkeppni við félagið. Í niðurstöðu dómsins segir að engin gögn um slíkt hafi ratað inn í málið og að engin vitni hafi verið kölluð fyrir dóm sem hefðu getað staðfest að Svavar hefði nálgast viðskiptavini og birgja. Að vísu væri til staðar tilkynning til fyrirtækjaskrár um stofnun félagsins Phoenix Fish ehf. þar sem Svavar og eiginkona hans hefðu tekið við öllum trúnaðarstörfum. Einnig hefðu verið lögð fram myndskilaboð sem sýndu hjónin „skála fyrir fyrstu sölunni hjá #Phoenixseafood“.

„Engar frekari upplýsingar liggja fyrir í málinu um það hvað þarna kallaði á, að því er virðist, dagamun, en [Óskar, Bjartmar og Bacco] telja, að því er best verður séð, hér um að ræða sönnun eða í það minnsta vísbendingu um að [Svavar] og eiginkona hans hafi þarna fagnað árangri sem hefði náðst í samkeppni við Bacco,“ segir í dóminum.

Að mati dómsins felast í slíku samkeppnisbanni að vegið er að stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi einstaklinga. Slíkar hömlur verði einstaklingur að undirgangast skýrlega sjálfur. Í starfssamningi aðila fólst að léti Svavar sjálfur af störfum gæti hann ekki starfað í samkeppni við Bacco í tólf mánuði.

„Frá ákvæðinu verður, á grundvelli framangreinds, gagnályktað á þann veg að samkeppnisbann þetta gildi ekki ef starfsmanni er sagt upp störfum,“ segir í niðurstöðu dómsins. Þá hefði stefndu ekki tekist sönnun um að Svavar hefði brotið gegn starfsskyldum sínum eða sinnt starfinu illa á meðan ráðningarsambandi stóð. Þá þótti ekki sannað að Svavar hefði skaðað hagsmuni Bacco með stofnun Phoenix Fish. Var því fallist á kröfu hans um greiðslu launa.

Hvað samning um kaup á hlutafé varðaði þá var það mat dómsins að þeir hefðu verið gildir. Dómurinn tók því næst til skoðunar hvort forsendur fyrir samningsgerðinni hefðu brostið sökum rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum Svavars.

„Af málatilbúnaði aðila verður því að telja að fljótlega eftir samningsgerðina 28. mars 2018 hafi þeim gefist fullt tilefni til afgerandi aðgerða gagnvart [Skástræti] og forsvarsmanni hans, Svavari Þór, í ljósi þeirrar gríðarlegu áherslu sem þeir sjálfir leggja á í málatilbúnaði sínum að a.m.k. þeir aðilar sem í forsvari eru séu ekki undirseldir neins konar rannsókn á skattamálum eða hafi óhreint mjöl í pokahorninu sem skaðað gæti trúverðugleika og traust viðskiptamanna á Bacco Seaproducts ehf. Ekkert í málinu gefur til kynna að til slíkra aðgerða hafi verið gripið fyrr en upp úr sauð á milli aðila að því er virðist í júní 2019,“ segir í niðurstöðukafla dómsins. Að mati dómsins varð því ekki ráðið að einhverjar grundvallarforsendur hefðu tekið breytingum. Ekki var heldur fallist á kröfu um ógildingu samkomulagsins á grundvelli annara ógildingarreglna samningaréttarins.

Auk þessa þurfa stefndu í málunum að greiða Svavari og Skástræti samtals 1.600 þúsund krónur í málskostnað.