Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra ítrekaði á Alþingi í dag að hann hefði ekki haft vitneskju um , fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbanka Íslands, tilboð sem breska fjármálaeftirlitsins (FSA) á að hafa lagt fram að gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu væri FSA tilbúið að færa reikninga Icesave yfir í breska lögsögu.

Árni kveðst ekki heldur vita til þess að aðrir hafi haft vitneskju um það tilboð.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Árna út í þetta mál í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Áður hafði hún lagt fram skriflega fyrirspurn um sama efni.

Flýtimeðferð ekki tengd við 200 milljónirnar

Siv spurði ráðherrann aftur út í eftirfarandi ummæli í samtali við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta:

Darling: „Ég tek því þá sem svo að loforðið sem Landsbankinn gaf okkur um að hann fengi 200 milljónir punda í reiðufé sé einnig fyrir bí?“ Ráðherra: „Já, þeir fengu ekki það fé.“

Árni sagðist þarna hafa verið að vitna til beiðni Landsbankans um fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. „Ég taldi þegar ég svaraði honum í mínu samtali að hann hefði verið að vísa til þessarar beiðni," sagð Árni.

Hann sagðist hafa haft vitneskju um það að Landsbankinn hefði verið að reyna að flýta fyrir því að Icesave-reikningarnir yrðu fluttir undir breska lögsögu. „En flýtimeðferðinni var hafnað," sagði hann og hélt áfram:

„Ég veit ekki til þess að sú flýtimeðferð hafi verið tengd við 200 milljón punda tilboð frá fjármálaeftirlitinu. Það hef ég ekki heyrt neins staðar nema frá Björgólfi Thor í blöðunum. [...] Ég veit ekki til þess að það hafi komið til stjórnsýslunnar - það kom að minnsta kosti ekki til mín."

Ekkert sem benti til beitingu hryðjuverkalaganna

Árni sagði síðan undir lok umræðunnar um þetta mál. „Það er ekkert í okkar samtali sem við áttum, ég og háttvirtur fjármálaráðherra Bretlands, um það að hann kynni að beita hryðjuverkalögunum. Okkar samtali lauk á þann hátt - og munið það að þetta var daginn eftir að við settum neyðarlögin hér um nóttina - munið það - því lauk með því að við ætluðum að vera í sambandi og að okkar embættismenn myndu tala saman um þessi mál."