Landbrot af völdum ágangs sjávar ógnar nú mikilvægum fornleifum við strendur Bretlandseyja, og sumar minjar hafa nú þegar sokkið í haf, segir í frétt Independent. Hinn forna byggð Skara Brae á Orkneyjum var tæpa tvo kílómetra frá sjávarsíðunni þegar fyrstu íbúarnir völdu henni stað fyrir nokkur þúsund árum, en síðan þá hafa greipar Ægis krafsað svo um munar í strandlínuna. Nú er svo komið að brimið úðast yfir minjarnar, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, þrátt fyrir að varnarveggur hafi verið byggður árið 1926.

Skoskar rannsóknir benda til að við strönd landsins séu 10 þúsund forn eða söguleg minjasvæði í hættu vegna landbrots, þar á meðal haugar víkinga, hús frá járnöld og ruslahaugar frá bronsöld. Fornleifafræðingar á Bretlandseyjum lýsa miklum áhyggjum vegna þessarar þróunar, því það getur reynst þrautin þyngri að komast yfir fornleifarnar þegar þær hafa einu sinni ratað í vota gröf.