Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, er eitt sex skipa sem tekur þátt í  árlegum og fjölþjóðlegum uppsjávarleiðangri - tíunda árið í röð.

Árni Friðriksson, annað tveggja rannsóknarskipa stofnunarinnar, hélt úr höfn í byrjun mánaðar og hélt norður á bóginn samkvæmt fyrirfram skipulagðri rannsóknaráætlun.

Ásamt Árna Friðrikssyni taka þátt í leiðangrinum skip frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Sjá má staðsetningu og siglingarleið flestra skipanna á slóðinni skip.hafro.is

„Í leiðangrinum verður aflað gagna sem nýtast við fjölbreyttar rannsóknir sem snúa að vistkerfisþáttum frá frumframleiðni sjávar til útbreiðslu hvala. Gögnum er safnað fyrir 21 mismunandi rannsóknaverkefni, þar af fjögur ný. Meðal nýju verkefnanna eru fitumælingar á makríl og söfnun á erfðaefni úr íslenskri sumargotssíld,“ segir á vef Hafró.

„Leiðangurinn stendur í 30 dag og verða sigldar um 5.900 sjómílur eða tæplega 11 þús. km. Um borð eru sjö vísindamenn og 17 manna áhöfn. Eins og í fyrra mun leiðangursfólkið halda úti bloggi þar sem hægt verður að fylgjast með því sem fram fer um borð í rannsóknaskipi.

Njóta sólarinnar og lognsins

„Það er hásumar og sólin yljar okkur þar sem við horfum á hafísinn fljóta hjá meðan við njótum blíðveðursins í sólbaði á dekkinu,“ segir á bloggsíðu leiðangursins föstudaginn 5. júlí.

„Um það bil 80 sjómílur norðvestur af Straumnesi lentum við í hafís og urðum að beygja af leiðarlegg þó um 25 sjómílur væru eftir og ein fyrirfram ákveðin togstöð. Við fylgjum nú ísröndinni í austurátt að næsta leiðarlegg.“

Blogghöfundur segir að hafís reki stundum á þetta svæði á sumrin og hafi þá jafnvel hindrað ferðir skipsins.

Hafísinn reynist erfiður

„Hafís hindraði lika för okkar um þetta svæði í leiðangrinum 2017 en það var íslaust 2018.“ Þetta árið hefur hafísinn einnig reynst leiðangrinum erfiður.

„Við vonum það besta og að ísinn reki í norður sem fyrst,“ skrifar blogghöfundur þann 5. júlí, en svo fór að sleppa þurfti nokkrum togstöðvum nyrst á þessu svæði.

Þrátt fyrir hafísinn var veðurblíðan mikil og gaman á siglingunni.

„Veðrið er búið að vera yndislegt í dag. Við höfum notið sólarinnar og lognsins enda er slík blíða sjaldgæf,“ skrifar blogghöfundur.

Stjarna leiðangursins

Að venju er makríllinn „stjarna leiðangursins“ eins og það er orðað á blogginu. Markmiðið er að kortleggja útbreiðslu makríls á svæðinu sem nær allt frá suðurodda Grænlands norður til Svalbarða, suður með Noregi og inn í Norðursjó milli Bretlands og Danmerkur.