,,Þetta er bein erlend fjárfesting eins og hún gerist best og gott dæmi um það hvernig íslensk sprotafyrirtæki geta vaxið og dafnað frá því að vera lítil hugmynd og upp í að vera arðbær félög og vænlegur fjárfestingarkostur fyrir alþjóðleg fyrirtæki,“ er haft eftir Helgu Valfells , framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins, í fréttatilkynningu þar sem sagt er frá kaupum banadaríska fyrirtækisins Teledyne Technologies á nýsköpunarfyrirtækinu Hafmynd.

Hafmynd þróar og framleiðir dvergkafbáta. Seljendur Hafmyndar eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, fyrirtæki í eigu Össurar Kristinssonar, stoðtækjafræðings, auk smærri hluthafa. Kaupin eru gerð fyrir milligöngu Fyrirtækjaráðgjafar Saga Capital Fjárfestingarbanka.

,,Við hjá Nýsköpunarsjóði erum afar stolt af því að hafa komið að því að byggja upp Hafmynd og viljum þakka samfjárfesti, starfsmönnum og stjórnarmönnum Hafmyndar fyrir farsælt og gott samstarf í gegnum árin,“ er haft eftir Helgu. Hún segir mjög mikilvægt að starfsemi Hafmyndar haldi áfram hérlendis.

Gavia, dvergkafbátarnir sem Hafmynd framleiðir eru ómannaðir, fyrirferðarlitlir og léttir og útbúnir myndavélum og margs konar mælitækjum svo sem sónar, salt- og dýptarmælum. Þeir henta vel í ýmis konar rannsóknarvinnu og eftirlit í sjó og á vötnum og hafa verið notaðir til umhverfisrannsókna, sjómælinga, til leitar og fornleifarannsókna á hafsbotni og við öryggiseftirlit til dæmis í höfnum og við olíuborpalla.

Viðurkenning á íslensku hugviti

Össur Kristinsson segir í tilkynningunni að kaup Teledyne á Hafmynd séu gríðarleg viðurkenning á íslensku hugviti. ,,Hafmynd er íslenskt þekkingarfyrirtæki sem byggir á allra nýjustu rannsóknum og tækni á sviði vélbúnaðar, hugbúnaðar og fjarskipta. Þessi sala er viðurkenning á því að starfsmenn Hafmyndar eru fremstir á sínu sviði í heiminum öllum,“ segir Össur.

Hafmynd var stofnað árið 1999 af Hjalta Harðarsyni, verkfræðingi og Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands en forsögu fyrirtækisins má rekja allt aftur til Raunvísindastofnunar HÍ í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins. Hafmynd hlaut nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs árið 2007 og tilnefndir til Vaxtasprota Samtaka Atvinnulífsins árið 2010.

Ekki fylgja upplýsingar um verð í tilkynningunni.