Breska iðnaðarfyrirtækið Rolls-Royce bauð fjórtán þúsund starfsmönnum upp á tveggja þúsund punda eingreiðslu, eða sem nemur 320 þúsund krónum, til að hjálpa þeim að takast á við verðbólguna.

Starfsfólk fyrirtækisins, sem eru meðlimir í stéttarfélaginu Unite the Union, höfnuðu hins vegar eingreiðslunni. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Eingreiðslan átti að vera fyrir 70% af starfsfólki félagsins í Bretlandi, en fyrirtækið ætlaði einnig að veita starfsfólki á gólfinu 4% launahækkun. Verðbólgan mældist 9,1% í Bretlandi í maí, en talið er að hún verði meiri en 11% síðar á árinu. Eingreiðslan hefði kostað félagið 28 milljónir punda.

Í tilkynningu frá stéttarfélaginu segir að boð framleiðandans hafi verið langt frá kröfum félagsmanna. „Fulltrúar Unite the Union eru í viðræðum um næstu skref,“ segir í tilkynningunni.