Hæstiréttur hafnaði í dag þremur beiðnum um áfrýjunarleyfi en leyfanna hafði verið óskað sökum þess að skipan hluta dómara í Landsrétti hafi ekki verið í samræmi við lög.

Sem kunnugt er komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að framkvæmd skipanar Arnfríðar Einarsdóttur í embætti landsréttardómara hafi farið á svig við Mannréttindasáttmála Evrópu. Arnfríður var í hópi fjögurra dómara sem þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, færði ofar á lista hæfnisnefndar en dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að við það hafi hún ekki fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Málin þrjú sem nú um ræðir voru öll sakamál. Í tveimur þeirra átti áðurnefnd Arnfríður Einarsdóttir sæti í dómnum en í eitt sinn Ásmundur Helgason. Refsingar dómþola voru á bilinu þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi, fyrir þjófnað og brot gegn vegalögum, og upp í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot.

Leyfisbeiðendur byggðu á því að slíkir annmarkar hefðu verið á skipan dómaranna að ómerkja ætti dóminn en á það féllst Hæstiréttur ekki. Dómurinn hefði áður tekið afstöðu til slíkrar kröfu í maí í fyrra en það mál endaði með dómi MDE.

„Sá dómur [MDE] er ekki orðinn endanlegur og kann að geta sætt endurskoðun. Mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti nema hann verði annaðhvort endanlegur eða niðurstaða hans látin standa óröskuð við endurskoðun en alls er óvíst hvenær það gæti orðið,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.

„Ótækt er vegna þessa álitaefnis eins út af fyrir sig að heimila í þessu sakamáli áfrýjun sem fyrirsjáanlega hefði þá afleiðingu að hér fyrir dómi yrði að fresta því um ótiltekinn tíma án þess að nokkru verði nú slegið föstu um hvert vægi þessa álitaefnis kynni að verða.“

Afgreiðsla réttarins var hin sama í öllum málunum þremur.