Gjaldeyriskaup Seðlabankans hafa ekki haft marktæk áhrif á vöxt peningamagns þegar litið er til undanfarins eins og hálfs árs. Þetta kemur fram í ítarlegu svari Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Frá ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn keypt gjaldeyri fyrir 206 milljarða króna. Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hélt því fram á dögunum að gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hefðu á undanförnum misserum aukið peningamagn í umferð. Um væri að ræða svokölluð óstýfð inngrip, þar sem mótvægisaðgerðum væri ekki beitt að fullu til að koma í veg fyrir aukningu peningamagns í umferð.

Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að nauðsynlegt sé að hafa í huga samhengi helstu stýritækja bankans. Rétt eins og í öðrum þróuðum ríkjum stýri Seðlabankinn peningamálum í gegnum vexti, en ekki magnstærðir á borð við peningamagn. Á tímabilinu frá byrjun árs 2014 til 10. júlí síðastliðins minnkuðu viðskipti Eignasafns Seðlabankans laust fé um 79 milljarða króna.

Aukning á bundnum innlánum bankanna í Seðlabankanum minnkaði laust fé um 68 milljarða. Breytingar á stöðu ríkissjóðs og ríkisstofnana hjá Seðlabankanum námu 49 milljörðum og aukning í álagðri bindiskyldu hafði neikvæð áhrif á laust fé upp á 4 milljarða króna. Bankinn segir að samanlagt hafi þessar beinu og óbeinu aðgerðir bankans að fullu stýft gjaldeyrisinngripin. 6 milljarða vantar þó upp á, en sú upphæð er sögð vera innan skekkjumarka.