Yfirskattanefnd hefur aftur hafnað kröfu RVK Studios, framleiðslufyrirtækis Baltasar Kormáks, um að vaxtagjöld af láni milli tveggja félaga í sömu félagasamstæðu geti talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar við framleiðslu á sjónvarpsþáttunum Ófærð.

Almennt endurgreiðir ríkið 20% af rekstrarkostnaði við framleiðslu á sjónvarpsefni og kvikmyndum. Endurgreiðslan vegna framleiðslu á Ófærð nam rúmum 223 milljónum samkvæmt yfirliti sem birtist á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Forsaga málsins er sú að RVK Studios skaut því til yfirskattanefndar hvort vaxtagjöld upp á rúmar 10,6 milljónir og erlendur kostnaður að fjárhæð 5,3 milljónir gætu talist til endurgreiðslustofns á rekstrarkostnaði. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu en í kjölfarið óskaði RVK Studios eftir því að málið yrði tekið upp að nýju þar sem úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum að því er snertir vaxtagjöldin. Niðurstaða skattanefndar hafi verið byggð á því að ekki lægi fyrir lánssamningur en hann hafi þó fylgt með.

Yfirskattanefnd féllst á beiðni um endurupptöku en nefndin taldi þó að rétt væri að líta á lánið sem fjárframlag til framleiðslu sjónvarpsþáttaraðarinnar eða eftir atvikum stofné þar sem lánið hafi verið veitt innan sömu félagasamstæðu. Því verði ekki talið að gjaldfærður vaxtakostnaður vegna lánsins geti myndað stofn til endurgreiðslu á grundvelli laganna.