*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 8. júlí 2019 13:29

Hafna ógildingu samruna

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti fyrir helgi þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) að heimila samruna Haga og Olís.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti fyrir helgi þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) að heimila samruna Haga hf. og Olíuverzlunar Íslands hf. Samkaup höfðu kært ákvörðunina til nefndarinnar þar sem félagið taldi samrunann raska samkeppni.

Samruni félaganna var samþykktur 11. september á síðasta ári og bundinn ýmsum skilyrðum. Meðal annars bar Högum að selja þrjár dagvöruverslanir, fimm eldsneytisstöðvar Olís og dagvöruhluta verslunar Olís í Stykkishólmi. Fyrir nefndinni gerði Samkaup kröfu til vara um að áfrýjunarnefndin myndi binda samrunann enn frekari skilyrðum.

Fyrir máli sínu færði Samkaup þau rök að rannsókn SKE hafi ekki verið fullnægjandi á áhrifum samrunans á undirliggjandi mörkuðum. Þá hafi SKE byggt á röngum forsendum við mat sitt og að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar í málinu.

Á þetta féllst áfrýjunarnefndin ekki. Rannsókn hafi verið fullnægjandi og lagst hafi verið í ítarlegar rannsóknir á markaðnum og styrk samrunaaðila. Þá hafi málsmeðferðarreglunum verið fylgt. Varakröfunni, um að sátt SKE og félaganna yrði breytt, var hafnað með vísan til þess að slíkt væri ekki í verkahring nefndarinnar. Samrunaaðilar ættu að gera tillögur að aðgerðum sem unnt væri að grípa til og það væri síðan SKE að ákveða hvort þær tillögur væru fullnægjandi. Það félli því ekki innan verkahrings nefndarinnar að kveða á um slík skilyrði.

Stikkorð: Hagar Olís