Talsmenn stóru viðskiptabankanna þriggja þvertaka fyrir það að íbúðalán bankanna séu til þess fallin að ýta undir bólumyndun á fasteignamarkaði. Þannig svara þeir ummælum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali í Viðskiptablaðinu í þarsíðustu viku.

Í viðtalinu sagðist Bjarni Benediktsson hafa miklar áhyggjur af því hversu brattir bankarnir hafa verið í því að lána.

„Þessi háu lánahlutföll finnst mér vera umhugsunarefni. Við þekkjum það frá árunum fyrir fall bankanna að of áhættusækin lánastarfsemi getur komið bönkunum í koll, valdið eignabólu og mjög skaðlegum áhrifum á íbúðalánamarkaðnum. Það er engin þörf fyrir íbúðaverðsbólu á Íslandi í dag, sagði Bjarni í viðtalinu. Hjá Landsbankanum er lánshlutfall íbúðalána allt að 85% af markaðsvirði eða verðmati eignar, 70% íbúðalán til allt að 40 ára og 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Bæði Arion banki og Íslandsbanki veita 80% lán að hámarki.

Í svari frá Haraldi Guðna Eiðssyni, upplýsingafulltrúa Arion banka, segir að bankinn telji að 80% lánshlutfall sé hæfilegt og ekki til þess fallið að ýta undir bólumyndun á fasteignamarkaði. „Einnig vöndum við mjög til verka þegar kemur að greiðslumati og er það lykilþáttur í áhættustýringu okkar hvað varðar lánveitingar til fasteignakaupa. Væri lánshlutfallið lægra er hætta á að stórum hópi fólks, ekki síst ungu fólki, sé gert ókleift að fjárfesta í íbúðarhúsnæði,“ segir í svarinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .