Áform Icelandair Hotels um að stækka Hótel Reykjahlíð úr níu herbergja hóteli í 43 herbergja hótel virðast úr sögunni. Umhverfisstofnun hefur með afgerandi hætti hafnað breytingartillögu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps vegna stækkunarinnar. Fréttablaðið segir frá.

„Ljóst er að leyfi Umhverfisstofnunar þarf fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við lög um Mývatn og Laxá. […] gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að svo mikil uppbygging innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár, aðeins 50 metra frá vatninu, yrði heimiluð af hennar hálfu,“ segir í niðurstöðuorðum Umhverfisstofnunar um skipulagstillöguna. Með öðrum orðum samþykkir stofnunin ekki skipulagsáætlunina og ef til leyfisveitingar kæmi, þá yrði henni hafnað af hennar hálfu.

Í upphafi áætlaði Icelandair Hotels að byggja þriggja hæða viðbyggingu við hótel Reykjahlíð. Vegna mótmæla landeigenda var hins vegar horfið frá þeim áformum, og viðbyggingar lækkaðar í tveggja hæða byggingar. Þeir sem eiga jarðir samliggjandi lóðinni sem Icelandair Hótel keyptu lýstu yfir stuðningi við við þau áform félagsins en í sumar undirrituðu 66%, eða um 200 manns, undirskriftalista þar sem andstöðu við uppbygginguna var harðlega mótmælt.