Af 19 milljón atkvæðabærum íbúum Venesúela, kusu 7,2 milljónir í óopinberri þjóðaratkvæðagreiðslu sem skipulögð var af stjórnarandstöðunni í landinu. Um er að ræða mótmæli gegn hugmyndum Maduro forseta um að endurskoða stjórnarskrá landsins, þrátt fyrir að núverandi útgáfa hennar hafi verið skrifuð undir stjórn Chavés fyrirrennara hans.

Er talið að hann vilji þannig tryggja enn frekar völd sín og að hann geti setið lengur en þau tvö kjörtímabil sem þar er mælt fyrir um. Hefur hann að því tilefni boðað til atkvæðagreiðslu til stjórnlagaráðs 30. júlí næstkomandi, sem eigi að endurskrifa hana.

Atkvæðagreiðslan sem fór fram í fyrradag hefur nú skilað þeirri niðurstöðu að 98% þeirra sem tóku þátt höfnuðu væntanlegu stjórlagaráði, og studdu nýjar kosningar áður en kjörtímabili forsetans líkur árið 2019. Jafnframt báðu kjósendur um að herinn beitti sér til að verja núverandi stjórnarskrá.

Rektor háskólans í Venesúela, Cecilia Garcia Arocha, tilkynnti um niðurstöðu kosninganna í Caracas, höfuðborg landsins. Benti hún jafnframt á hve þátttakan hefði verið góð, þrátt fyrir að kjörstaðir hefðu verið mun færri en almenn væri í kjörstöðum landsins, eða einungis 2.030 í stað rúmlega 14 þúsund.

Ríkisstjórnin sagði atkvæðagreiðsluna ólöglega, og var að minnsta kosti einn drepinn og fleiri særðir í skotárás þar sem skotið var á hóp kjósenda við einn kjörstaðinn.