Stjórn Hörpu hafnar því að laun forstjóra Hörpu hafi hækkað um 20% eftir tvo mánuði í starfi að því er kemur fram í yfirlýsingu frá henni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá lækkaði félagið sem heldur utan um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhallarinnar, þjónustufulltrúa í Hörpu í launum um svipað leiti og laun forstjórans voru hækkuð í kjölfar þess að ákvörðunarvaldið var fært frá Kjararáði til stjórnar félagsins.

Stjórnin segir að í byrjun árs 2017 hafi verið auglýst eftir nýjum forstjóra og í kjölfarið verið gengið til samninga. Samkvæmt þeim samningi sem var samþykktur áttu laun forstjóra Hörpu að vera 1.500.000 á mánuði og taka breytingum samkvæmt kjarasamningi VR og eru nú 1.567.000.

Þetta var áður en að ný lög, þess efnis að laun forstjóra ríkisfyrirtækja skyldu ákveðin af stjórnum þeirra í stað kjararáðs, tóku gildi. Stjórninni hafi í kjölfarið borist úrskurður kjararáðs um að laun forstjóra Hörpu ættu að vera tæpum 200.000 krónum lægri en samningurinn sagði til um. Fyrir lá þó að nýju lögin ættu að taka gildi  1. júlí það ár. Var því samið um það við nýjan forstjóra að hún myndi taka á sig launalækkun í tvo mánuði þar til lagabreytingarnar tækju gildi. Eftir það voru laun hennar hækkuð aftur upp í það sem upphaflegur samningur kvað á um.

Þá vísar stjórn Hörpu í ársreikninga félagsins á síðustu fjórum árum. „Í ársreikningnum er gerð grein fyrir launum stjórnar og forstjóra félagsins sem námu 29,2 m.kr. árið 2017, en voru 27,2 m.kr. árið 2016, 26,4 m.kr. árið 2015 og 25 m.kr árið 2014. Þau hafa því hækkað um 16,8% á liðnum fjórum árum,“ segir í yfirlýsingunni.