Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, hafnar því alfarið að skattfé hafi verið notað við fjárhagslega endurskipulagningu Hótels Sögu ehf. Segir hann fullyrðingar um slíkt vera algjörlega úr lausu lofti gripnar.

Í Kjarnanum í dag er sagt frá fjárhagslegri endurskipulagningu Hótel Sögu ehf. Þar segir að Bændasamtök Íslands hafi lagt Hótel Sögu, sem gjarnan er nefnd Bændahöllin, til 250 milljónir króna í nýtt eigið fé og fengu skuldir við Arion banka felldar niður í tengslum við endurskipulagninguna. Viðskiptablaðið vísaði í umfjöllun Kjarnans í morgun.

„Fjármagn sem merkt er Bændasamtökum Íslands á fjárlögum vegna lögbundinna verkefna var ekki og hefur aldrei verið notað í tengslum við eignaumsýslu samtakanna. Allt þetta fjármagn fer í verkefni samkvæmt búnaðarlagasamningi,“ segir Sindri.