Japanska yenið styrktist gagnvart Bandaríkjadal og evru á mörkuðum Asíu í nótt. Gerðist það í kjölfarið á því að talsmaður ríkisstjórnarinnar í Japan hafnaði að nýta aðferð sem kallað hefur verið þyrlufé, til að koma í gang verðbólgu. Snýst hún um að láta seðlabanka landsins kaupa ríkisskuldabréf til að fjármagna ríkisútgjöld eða skattalækkanir.

Hlutabréf hækkuðu í kjölfar orðróms

Væntingar um auknar aðgerðir til að örva hagkerfi landsins hafa leitt til hækkana á hlutabréfum í Tokyo um 8% það sem af er vikunnar. hafa fjárfestar flykkst með fé sitt til landsins síðan Bretland ákvað að segja sig úr Evrópusambandinu, en japanska yenið hefur löngum verið álitin örugg höfn á óvissutímum.

Etsuro Honda, efnahagsráðgjafi forsætisráðherrans, hafði gefið til kynna að forsætisráðherrann ætti að nota aðferðina sem og að Koichi Hamada, sérstakur ráðgjafi hans hafði sagt það í lagi í eitt skipti.

„Það er ekkert til í því að ríkisstjórnin sé að íhuga slíka aðgerð,“ sagði Yoshihide Suga, aðalritari ríkisstjórnarinnar, en hann sagði jafnframt að ríkisstjórnin „stefndi að því að kynna til sögunnar víðtæka og ítarlega efnhagslega innspýtingu.“