Hluthafar Kviku hafa átt í samskiptum við stjórn Virðingar en vilji virðist vera í báðum hópum til sameiningar fyrirtækjanna samkvæmt frétt mbl.is .

Ef úr yrði myndi sameinað félag vera með nærri 220 milljarða króna í stýringu, auk verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar.

Mæla gegn því að tilboði sé tekið

Ágreiningsefnið virðist snúast um hvert virði Virðingar sé, en stjórn Kviku hefur mælst gegn því við hluthafa sína að taka tilboði Virðingar í hluti félagsins sem þeir segja að verðmeti Virðingu hlutfallslega of hátt.

Gerir tilboðið ráð fyrir því að verðmæti hlutafjár Viðringar yrði um 31% í sameinuðu félagi á móti 69% hlutafjár Kviku. Er Kvika verðmetið á 6,6 milljarða króna, en eigið fé bankans var 6,2 milljarðar í lok september og Virðing á 3 milljarða.

Vilja gera gagntilboð í hluti í Virðingu

Segir í fréttinni að enn sé samt sem áður áhugi á sameiningu en stjórn Kviku telji markvissari leið til sameiningar að Kvika geri gagntilboð í hluti í Virðingu.

Lýsir stjórn Kviku sig reiðubúna til viðræðna um sameiningu á þeim grundvelli að bjóða reiðufé fyrir hlutina í Virðingu, en Virðing hafði boðið til helminga reiðufé og hluti í hinu sameinaða félagi sem bera ætti nafn Kviku.

Stjórn Kviku segir fyrirvara og skilyrði tilboðs Virðingar, þar á meðal fjármögnun þess, sem byggir á útgáfu aukins hlutafjár, vera flókin og óaðgengileg.