Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun frávísunarkröfum stefndu í ellefu riftunar- og skaðabótamálum sem þrotabú Wow air höfðaði. Málin muni því hljóta efnismeðferð fyrir dómi. Þetta staðfestir Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóra búsins, við Viðskiptablaðið.

Málin voru höfðuð í upphafi síðasta árs en í þeim er krafist riftunar og/eða skaðabóta vegna ýmissa greiðslna sem áttu sér stað á síðustu dögum félagsins. Að mati þrotabúsins eru álitamál uppi um það hvort félagið hafi verið gjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Dómkröfur málanna slaga samanlagt upp í á annan milljarð króna.

Fyrrverandi forstjóra og eiganda flugfélagsins, Skúla Mogensen, er stefnt til varnar í öllum málunum ellefu. Í hverju máli fylgir síðan með lögaðili sem fékk greiðslu frá þrotabúinu. Í öllum málunum var krafist frávísunar, þá ýmist á grunni þess að skilyrði samlagsaðildar væru ekki fyrir hendi, málin væru vanreifuð eða þau væru höfðuð á röngu varnarþingi svo dæmi séu nefnd. Skemmst er frá því að segja að héraðsdómur féllst ekki á þessar kröfur. Málinu munu því fá efnismeðferð.

Skiptastjórarnir tveir, fyrrnefndur Þorsteinn og Sveinn Andri Sveinsson, skiptu málunum nokkuð bróðurlega milli sín. Aukamálið, það er það sem stóð út af þegar þeim hafði verið deilt með tveimur, féll í hlut Þorsteins. Auk málanna ellefu hefur fyrrverandi stjórnarmönnum Wow einnig verið stefnt til sakarauka í nokkrum málum.

Kröfur í þrotabú Wow námu alls rúmlega 150 milljörðum króna en langstærstur hluti þeirra eru almennar kröfur. Útilokað er talið að nokkuð muni fást upp í þær.

Leiðrétting 17.32 Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að málin yrðu að óbreyttu tekin til efnismeðferðar og að það ylti á niðurstöðum kærumála, ef einhver yrðu, til Landsréttar. Þar varð blaðamanni á í messunni því það eru aðeins úrskurðir héraðsdóms um frávísun sem geta sætt kæru til æðra dómstigs. Leiðréttist þetta hér með og eru lesendur beðnir afsökunar á þessum leiðu mistökum.