Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag frávísunarkröfu Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans, í einu af mörgum málum slitastjórnar Landsbankans gegn honum. Þetta mál sem var fyrir dóminum í dag snýr að riftun á greiðslu sem bankaráð gamla Landsbankans og kjaranefnd bankans ákvað að greiða Sigurjóni sérstaklega í september árið 2008 í kjölfar þess að gengið var frá samkomulagi þess efnis að Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri við hlið Sigurjóns, hætti ekki störfum hjá bankanum nokkru áður. Talið var eðlilegt að Sigurjón fengi sambærilega greiðslu og Halldór. Greiðslan til Halldórs nam í kringum 300 milljónum króna, samkvæmt lögmanni Sigurjóns. Endurgreiðslukrafan á hendur honum hljóðar upp á 180 til 190 milljónir króna.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, segir í samtali við vb.is málið undarlegt. Hann bendir á að þegar skilanefnd tók yfir stjórn Landsbankanum um mánuði eftir að samið var við Sigurjón haustið 2008 hafi hann ákveðið í kjölfar þess að hann fór frá störfum að sækjast eftir greiðslunni. Hann sendi bankanum gögn þessa efnis en óskaði sömuleiðis eftir því að fá greidd laun á uppsagnarfresti. Laun á uppsagnarfresti lét hann ganga upp í greiðsluna sérstöku frá bankanum. Skilanefndin samþykkti það og var gengið frá launum Sigurjóns og af þeim greidd skattar og skyldur, s.s. tekjuskatti og gjöld í lífeyrissjóði.