Atvinnuvegaráðuneytið hefur hafnað kröfu þriggja innflutningsfyrirtækja um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna tollkvóta á búvörum. Þetta kemur fram í frétta á vef Félags atvinnurekenda .

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann dóm 17. mars síðastliðinn að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur sem bryti í bága við stjórnarskrá. Í framhaldinu sendi Félag atvinnurekenda ráðuneytinu erindi 23. mars og krafðist þess að innflutningsfyrirtækjum yrði endurgreitt útboðsgjald sem greitt hefði verið fyrirfram vegna innflutningsheimilda sem enn hefðu ekki verið nýttar.

Fyrirtækin þrjú sem í hlut áttu, Hagar, Sælkeradreifing og Innnes, kröfðust hvert um sig endurgreiðslu útboðsgjaldsins vegna ónýttra innflutningsheimilda. Í umfjöllun um málið á vef Félags atvinnurekenda segir að lögmenn fyrirtækjanna hafi nú fengið nánast samhljóða bréf frá ráðuneytinu sem segi að ráðuneytið hafni greiðslu til umbjóðenda þeirra. Engan rökstuðning sé hins vegar að finna fyrir ákvörðuninni.

„Stjórnvöldum ber samkvæmt stjórnsýslulögum að rökstyðja ákvarðanir sínar og munu lögmenn fyrirtækjanna fara fram á slíkan rökstuðning frá ráðuneytinu. Erindum Félags atvinnurekenda til ráðuneytisins hefur enn ekki verið svaraðm,“ segir í frétt Félags atvinnurekenda.