Kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur hafnaði tilboði um að leikstýra nýjustu kvikmyndinni í "The Fast and the Furious" seríunni vinsælu til að hans nýjasta kvikmynd, Eiðurinn, gæti orðið að veruleika.

Frá þessu greindi Baltasar á sérstakri Icelandair-forsýningu myndarinnar í gærkvöldi en kvikmyndin sem hann hafnaði heitir Fast 8 og verður frumsýnd á næsta ári. Hluti myndarinnar var tekinn upp á Íslandi og vakti koma tökuliðsins hingað til lands mikla athygli.

Baltasar sagði að um 250 milljóna dollara mynd hafi verið að ræða og því er ljóst að hann fórnaði sjálfur umtalsverðum fjármunum til að framleiða Eiðinn. Hann leikstýrði einnig myndinni og lék aðalhlutverkið, en Eiðurinn fjallar um hjartalækni sem þarf að horfa á eftir dóttur sinni sökkva dýpra og dýpra í heim fíkniefnaneyslu og ákveður að taka málin í sínar hendur.

Baltasar hefur þegar leikstýrt frægum Hollywood kvikmyndum á borð við Everest, 2 Guns og Contraband. Verður að teljast virðingavert að hann hafi fremur kosið að leikstýra íslenskri mynd en annarri Hollywood mynd, þó verkefn hans þar ættu ekki að vera af skornum skammti í náinni framtíð.