Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, segir það slæmt að ekki hafi verið hafist handa við samninga við lánadrottna fyrr. Greint var frá því í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær að 4,2 milljarða lán sem írsk-þýska bankans Depfa bank veitti bænum er gjaldfallið. Samningar um endurfjármögnun hafa enn ekki náðst. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sagðist í samtali við Viðskiptablaðið vera bjartsýnn á að samningar náist á næstu dögum eða vikum.

Til viðbótar þessu láni hefur Hafnarfjarðarbær tekið annað, og stærra, lán hjá sama banka sem fellur á gjalddaga á næsta ári. Upphæð þess láns er 5,1 milljarður króna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í skilmálum lánanna sé gjaldfellingarheimild þannig að gjaldfalli annað þeirra megi gjaldfella hitt lánið. Ekki er ljóst hvort stærra lánið er einnig gjaldfallið. Aðspurður um þetta segir Guðmundur Rúnar að í samtölum sem bærinn á við Depfa sé ekki talað um annað en að stærra lánið verði greitt á þeim gjalddaga sem áður hefur verið samið um.

Valdimar segir að gott samstarf sé þó um það innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að ljúka málinu. „Það er lykilatriði fyrir bæjarstjórn og við gerum okkar besta til að hjálpast að við þetta. Bærinn á ekki að vera í vandræðum þó menn greini á í pólitík,“ segir Valdimar.