Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðmundur I. Ásmundson forstjóri Landsnets skrifuðu í dag undir samkomulag um uppbyggingu hluta raforkuflutningskerfis fyrirtækisins innan Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Landsneti og Hafnarfjarðarbæ.

Þar er haft eftir Haraldi að hann fagni samkomulaginu og segir að það tryggi að það verði hafist handa við að breyta ásýnd og bæta hljóðvist við tengivirkið í Hamranesi og að línurnar verði farnar að hluta til í jörð næst Hamranesi ekki seinna en árið 2018. Guðmundur tekur undir með Haraldi. „Samkomulagið er gert í samráði við samtök íbúa á Völlunum í Hafnarfirði og er mikilvægt að þannig hefur náðst niðurstaða sem víðtæk sátt er um,“ segir hann í tilkynningunni.

Áætlaður kostnaður tæpir 5 milljarðar

Í tilkynningunni segir að Samkomulagið miði að því að hægt verði að rífa Hamraneslínur 1 og 2 og að færa Ísallínur 1 og 2 sem liggja frá tengivirkinu í Hamranesi að álverinu í Straumsvík fjær byggðinni. Gert ráð fyrir að ný Suðurnesjalína 2 – 220 kV háspennulína sem lögð verður út á Reykjanes – tengist Hamranesi með 1,5 km löngum 220 kV jarðstreng frá Hraunhellu. Hafnarfjarðarbær mun á næstunni gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þeim hluta Suðurnesjalínu 2 sem liggur um land bæjarins.

Áætlað er að framkvæmdum, sem felast í samkomulagi Landsnets og Hafnarfjarðarbæjar, ljúki fyrir árslok 2018, að því gefnu að tilskilin leyfi fáist í tæka tíð. Áætlaður kostnaður Landsnets vegna þessara breytinga nemur tæpum 5 milljörðum króna, auk þess er kostnaður við Suðurnesjalínu 2 áætlaður um 2,5 milljarðar króna.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Suðurnesjalína 2 muni að óbreyttu liggja þvert yfir fyrirhugaðar flugbrautir í Hvassahrauni.