"Ég er fullur eftirvæntingar og líst afar vel á starfið," segir Böðvar Þórisson, nýráðinn forstjóri útivistarklæðnarfyrirtækisins Cintamani. Hann segir að félagið hafi ýmis tækifæri til þess að vaxa og dafna. Ekki síst sé hægt að efla fyrirtækið hér á landi. "Við erum í harðri samkeppni við erlend stórfyrirtæki í verslunum og það er krefjandi og spennandi að efla fyrirtækið hér heima, ekki síður en utan landsteinanna."

Böðvari var boðið annað starf sama dag og hann ákvað að taka starfi forstjóra Cintamani. Honum var boðið starf forstjóra Íbúðalánasjóðs, sem Sigurður Erlingsson hefur nú verið ráðinn í. "Ég sótti um starfið hjá Íbúðalánasjóði af fullum heilindum. Ég fer í gegnum það umsóknarferli með þá menntun, reynslu og þekkingu sem ég er með. Þessu fylgdu persónuleikapróf og fleira. Í miðju ferli var síðan ljóst að það var verið að leita að manni til þess að stýra Cintamani. Mér leist það vel á það að ég taldi mig ekki getað hafnað því." Það sem miklu skipti þegar Böðvar ákvað að taka starfinu var áhugi hans á útivist. "Ég hef lengi verið áhugamaður um útivist af ýmsu tagi. Þegar vinnan og áhugamálin fara saman þá er kominn fínn grundvöllur til þess að láta gott af sér leiða og það ætla ég mér að gera."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .