Arion banki segir að verðbréfaviðskipti innherja lúti mjög ströngum skilyrðum og voru þeir starfsmenn bankans, sem vitneskju höfðu um útboð á hlutabréfum Haga, útilokaðir frá þátttöku í útboðinu. Kemur þetta fram í yfirlýsingu frá bankanum.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Arion banki hafnar alfarið þeim aðdróttunum sem settar hafa verið fram í fjölmiðlum í dag og lúta að vangaveltum um ólögmæt innherjaviðskipti í tengslum við nýyfirstaðið úboð Haga.

Verðbréfaviðskipti innherja lúta mjög ströngum skilyrðum skv. lögum um verðbréfaviðskipti. Verðbréfaviðskipti starfsmanna Arion banka eru háð samþykki regluvarðar bankans. Reglum samkvæmt útilokaði regluvörður þá starfsmenn bankans frá þátttöku í útboði Haga sem hugsanlega gátu haft verðmótandi vitneskju sem ekki kom fram í útboðslýsingu, þ.e. þá starfsmenn sem töldust innherjar.

Útboðslýsing vegna útboðs Haga var ítarleg og innihélt allar upplýsingar sem lágu fyrir við útgáfu hennar og voru fjárfestum nauðsynlegar við mat á félaginu. Vissulega hefði verið betra að þær viðbótarupplýsingar sem komu fram síðar og gerð var grein fyrir í viðauka hefðu legið fyrir við útgáfu útboðslýsingarinnar. Íslensk löggjöf inniheldur skýr ákvæði um hvernig skuli brugðist við ef verðmótandi upplýsingar koma fram eftir birtingu lýsingar og var þeim ákvæðum fylgt að öllu leyti.

Í viðaukanum kom fram að Hagar ættu rétt á 510 milljóna króna endurgreiðslu vegna endurútreiknings gengistryggðra lána sem gerð höfðu verið upp árið 2009. Endurreikningur lánanna er tilkominn vegna dóms Hæstaréttar í máli Mótormax. Endurgreiðslan jafngildir um 3% af andvirði heildarhlutafjár Haga þegar tekið er mið af endanlegu útboðsgengi. Um var að ræða jákvæðar fréttir fyrir félagið.“