Ólafur Vignir Sigurvinsson, fyrrverandi eigandi DataCell, segir að Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, hafi ekki sagt satt og rétt frá sem vitni í máli DataCell og Sunshine Press Production gegn Valitor. Hann hafnar því alfarið að fjárfestar hafi komið að fjármögnun máls félaganna gegn greiðslumiðlunarfyrirtækinu.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í vikunni að ekki fengist upp hver yrði endanleg skipting 1,2 milljarðs bóta sem félögin tvö fengu frá Valitor. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fjárfestum hafi verið boðið að koma að fjármögnun málsins gegn því að fá prósentu í bótunum. Þá hefur blaðið einnig heimildir fyrir því að Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sunshine Press Production, hafi átt að fá, auk tímaþóknunar, allt að tíu prósent fyrir sín störf.

Sjá einnig: Endastöð WikiLeaks bóta óljós

„Ég tók að mér að fjármagna þetta til enda algjörlega úr eigin vasa,“ segir Ólafur Vignir.

Ólafur fagnar því að málinu sé nú loks lokið en lýsir yfir furðu á niðurstöðu dómsins. Upphæðin er í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl en upphaflega höfðu kröfur félaganna hljóðað upp á rúma sjö milljarða auk vaxta.

„Það var framkvæmt mat sem áætlaði tjónið um 3,6 milljarða. Valitor fékk yfirmat en hafa neitað að sýna það, væntanlega er það hærra. Dómurinn lítur alveg fram hjá matinu svo maður getur ekki annað en spurt sig hvað er eiginlega í gangi í þessu bananalýðveldi. En þetta er búið að taka níu ár svo við ákváðum að nú væri komið gott,“ segir Ólafur.

„Það er búið að meta tjónið tvisvar og ég er búinn að setja einhverjar tuttugu milljónir í matsgerð og svo er henni bara hent í ruslið. Auðvitað fór þetta ekki alveg eins og maður vildi en þetta sýnir manni að dómstólarnir eru algjörlega úti á túni,“ segir Ólafur.

Í vikunni var einnig sagt frá því að deilur stæðu um skiptingu bótanna milli félaganna tveggja auk þeirra fjárfesta sem heimildir herma að hafi keypt sig inn í kröfuna. Í DV kom meðal annars fram að þegar upp væri staðið færi ekki nema um rúmur helmingur upphæðarinnar til WikiLeaks.

Sjá einnig: Óttuðust að missa starfsleyfið

„Það er algjör fjarstæða. WikiLeaks fær sitt og gott betur,“ segir Ólafur en bætir við að fjárhæðin hefði, að hans mati, átt að vera talsvert hærri. „Þessi lokun olli miklu tjóni. Ég hef haldið því að skipunin um lokunina hafi komið frá VISA og MasterCard úti. Forstjóri Valitor hafnar því fyrir dómstólum en kemur síðan í viðtal þar sem hann segir að hann hafi orðið að gera þetta. Hann játar í blaðaviðtali að hafa logið að dómstólum.“

„Við vorum beitt miklum þrýstingi. Við hefðum getað misst starfsleyfi Visa og Mastercard,“ sagði Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist 9. maí síðastliðinn. Viðar gaf vitnaskýrslu í héraði við meðferð máls félaganna tveggja gegn Valitor árið 2012. Þar er haft eftir honum að erlendu fyrirtækin hafi rætt við hann um fyrirætlanir sínar. Þau hafi þó ekki gefið honum bein fyrirmæli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .