George Whitesides, forstjóri geimferðafyrirtækisins Virgin Galactic, hafnar ásökunum um að félagið hafi verið of áhættusækið við þróun geimflauga sinna. Financial Times greinir frá þessu. Ásakanir þess efnis komu í kjölfar brotlendingar tilraunaflugs einnar geimflaugar fyrirtækisins sem kostaði einn flugmann hennar lífið.

Virgin Galactic er hluti af Virgin samsteypunni sem er í eigu athafnamannsins Richard Branson en hann hefur gefið það út að geimferðaráætlun fyrirtækisins muni halda ótrauð áfram þrátt fyrir slysið.

Verið er að rannsaka slysið sem varð yfir Mojave eyðimörkinni í Bandaríkjunum en orsök þess eru enn óljós. Líklegt þykir að rannsókn slyssins muni taka í hið minnsta ár.