Mat Seðlabankans á verðbólguhorfum hefur verið gagnrýnt nokkuð upp á síðkastið en það byggist annars vegar á verðbólguáhættuálagi á skuldabréfamarkaði og hins vegar á markaðskönnun markaðsaðila. Bankinn hækkaði stýrivexti um 50 punkta í gær. „Seðlabankinn gerir lítið úr þróun á verðbólguvæntingum á markaði undanfarið,“ segir Agnar Tómas Möller, einn stofnenda GAMMA, í samtali við Viðskiptablaðið í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar, en hann skrifaði grein um málið sem birtist í síðustu viku.

„Það er stundum eins og hann skiptist á milli þess að vísa í skuldabréfamarkaðinn og svo í könnunina eftir hentugleika. Ég hef bent á að það geti verið varasamt að leggja of mikla áherslu á þessa könnun vegna þess að í henni er tiltölulega smátt úrtak og að auki geta markaðsaðilar haft áhrif á peningastefnuna í gegnum hana. Á Íslandi eru tugir sjóðsstjóra hjá bönkunum og lífeyrissjóðunum með mikla peninga undir. Menn geta reiknað með því að þar séu atvinnumenn að stýra peningum og leggja undir hvar þeirra væntingar liggja,“ segir Agnar Tómas.

Í Peningamálum stendur að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hafi eftir fimm og tíu ár verið að meðaltali tæplega 4,5% í júlí eða 0,6 til 0,8% lægra en í maí. Seðlabankinn telur líklegt að þessi lækkun endurspegli ásókn erlendra aðila í óverðtryggð ríkisskuldabréf fremur en lækkun verðbólguvæntinga innlendra aðila. Agnar gefur lítið fyrir þá skýringu og segir að framvirka álagið, frá fimm árum til tíu ára, hafi verið mun lægra eða 3,9% að meðaltali í júlí. Nú hafi það lækkað mikið í ágúst og er nú um 3,65%.

„Samkvæmt opinberum upplýsingum hafa verið keyptir 7,7 milljarðar af bréfum frá erlendum aðilum sem er lítill peningur í samhengi við stærð skuldabréfamarkaðarins,“ bætir Agnar við. „Seðlabankinn er að segja að það sé einhver hreyfing á óverðtryggða endanum en staðreyndin er sú að það hefur verið mikið innflæði inn í verðtryggt. Það er því engan veginn hægt að segja að flæðið inn á óverðtryggða markaðinn hafi verið meira en nettóflæðið inn á verðtryggt. Ég hafna þess vegna alfarið þessum skýringum Seðlabankans.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .